Sjónræn dagbók - Æðarvarp I (2020 - 2021)
Sjónræn dagbók - Æðarvarp II (2021 - 2022)
Handgerður bómullar-pappír, náttúruleg söguleg litarefni, vatnslitur, blek, blýantur, prent.
Bókverkið er í einu eintaki
Tvær dagbækur. Sjónræn dagbók - Æðarvarp I var að mestu unnin á vinnustofu staðsettri í æðarvarpi, hún er stöðug skráning náttúruupplifana. Sjónræn dagbók - Æðarvarp II var unnin á vinnustofu í Reykjavík. Hún er dagleg skrásetning og úrvinnsla á gögnum sem safnað var í rannsóknarferðum í æðarvarp og skoðun á æðardúni. Dagbókarvinnan byggir á tengslum við ákveðinn stað, búskap æðarbóndans, rannsóknum, innsæi og upplifunum listamanns.
Æðarbændur færa í dagbók, dagsetja og skrá mikilvægt magn upplýsinga, gera samanburð, teikna upp, halda bókhald. Dagbókin er þannig hagnýt og mikilvægt rannsóknartæki fyrir bændurna.
Ólíkt hefðbundnum dagbókum æðarbænda eru verkin Sjónrænar dagbækur - Æðarvarp I og II einnig bókverkaskúlptúrar. Lestur verkanna fylgir ekki rökréttri framvindu. Hann er ekki línulegur, heldur byggir hann á myndlestri; rýmisupplifunum, litum, takti og möguleikum til túlkunar frekar en vísindalegum staðreyndum.
Pappírinn í dagbókunum hefur tilvísun í loftkenndan eiginleika dúnsins. Hann er hvítur og Indígó-blár, handgerður og saumaður í kjölinn. Pappírinn og litarefnin sem notuð voru eru mörg hver söguleg og náttúrulegur efniviður. Útlit bókverkanna er „lífrænt” og loftkennt, þau eru án forsíðu og baksíðu; hafa ekki skilgreint upphaf eða endi.