One Last Trip to The Underworld (2019)

Exhibition room: Hvelfing
Umvefjandi innsetning með hreyfimyndum og skúlptúrum úr leir.
Hreyfimyndir: One Last Trip to The Underworld, How to Slay a Demon (2019)
Skúlptúrar: Málningarsprey á epoxy-kítti, stál og við.

Sýningarsalur: Tónlistar- og ráðstefnusalur
Hreyfimynd: This is Heaven (2019)
Með góðfúslegu leyfi listamannanna og Tanya Bonakdar Gallery, New York/ Los Angeles.

Í samstarfi sínu kalla Djurberg og Berg fram kynlegt landslag þar sem hægt er að kanna skuggahliðar mannlegrar undirmeðvitundar. Með því að nota skúlptúra, stillumyndir, hljóð og umvefjandi innsetningar byggja listamennirnir upp frásagnir sem snúa að tilfinningalegri spennu, átökum, kynferðislegum löngunum og ofbeldi.

Með svörtum húmor og vott af fáránleika rannsaka Djurberg og Berg tilfinningasvið ótta, sakleysis, valds, græðgi og skammar. Freistandi litir, náttúruleg form og sefjandi tónlist einkenna verkin og auka á tilfinningalega vídd þeirra um leið og þau ögra sjónrænni skynjun áhorfandans.

Fyrir þessa sýningu hafa listamennirnir valið að skapa rými þar sem undirmeðvitundin ræður ríkjum, himnaríki og helvíti renna saman og mörkin milli fegurðar og grótesku leysast upp. Hreyfimyndirnar fjórar sem sýndar eru – One Last Trip to The Underworld, This is Heaven, Damaged Goods og How to Slay a Demon – hverfast um þemu á borð við þarfir, langanir og persónulega framþróun og afturför. Í Hvelfingu má sjá stóra skúlptúra, fugla sem hafa tyllt sér á blóm. Saman mynda íburðarmikil og litrík form þeirra nokkurs konar skógarlandslag og það er engu líkara en að hreyfimyndirnar hafi lifnað við og rutt sér leið inn í veruleikann. Heildarupplifunin flytur áhorfandann ofan í undirdjúpin og aftur til baka um leið og hún talar til leyndustu hugmynda okkar um sælu, sársauka, þrár og losta.

Með því að skapa alltumlykjandi umhverfi þar sem hreyfimyndir, skúlptúrar og innsetning vinna saman tekst Djurberg og Berg að kafa ofan í undirmeðvitundina og draga upp á yfirborðið bældustu og frumstæðustu hvatir mannsins. Heillandi samspil segulmagnaðs aðdráttarafls og andúðar kveikir nýjar kenndir, bæði andlegar og líkamlegar, og þrýstir vitund áhorfandans út að nýjum mörkum.

Á síðastliðnum áratug hafa Nathalie Djurberg og Hans Berg þróað áhrifamiklar sjónrænar og hljóðrænar aðferðir til að skapa list sem sprettur upp úr mörkum kvíða og þrár, áfalla og fullnægju, bælingar, losta og valds.

UM LISTAMENNINA

Verk Djurbergs og Bergs hafa verið sýnd víða um heim. Árið 2009 áttu listamennirnir verkið „The Experiment“ á 53. Feneyjartvíæringnum Biennial Making Worlds og hlutu þá Silfurljónið sem bjartasta vonin. Sýningarstjóri var Daniel Birnbaum. Árið 2010 hlutu þau verðlaun á alþjóðlega Kaíró tvíæringnum og Premio Pino Pascali-verðlaunin árið 2012. Meðal mikilvægra einkasýninga má nefna sýningar í Kunsthalle Winterhur, Sviss (2007); Fondazione Prada, Mílanó (2008); Hammer Museum, Los Angeles (2008); OMA Prada Transformer, Seúl (2009); Naturhistorisches Museum, Basel (2010); Wexner Center for the Arts, Columbus, Ohio (2011); Museum Boijmans Van Beuningen, Rotterdam (2011); Camden Arts Centre, London (2011); Walker Art Center, Minneapolis og New Museum, New York (2012); Garage Center for Contemporary Culture, Moskvu, Rússlandi (2013); ARoS Aarhus Kunstmuseum, Árósum, Danmörku (2015); Sammlung Goetz, München, Þýskalandi (2015); Minsheng Art Museum, Sjanghæ, Kína (2016); Stavanger Kunstmuseum (MUST), Noregi (2017); Moderna Museet, Stokkhólmi, Svíþjóð (2018) og Baltimore Museum of Art, Baltimore, Maryland (2019).

Verk Djurbergs og Bergs hafa verið sýnd á ýmsum samsýningum, meðal annars í Stedelijk Museum, Gent, Belgíu (2010); Kunsthaus Zürich, Zürich, Sviss (2012); Museum der Moderne, Salzburg, Austurríki (2013); Haus der Kunst, München, Þýskalandi (2014);  Palais de Tokyo, París, Frakklandi (2015); Albright-Knox Art Gallery, New York (2015) og Julia Stoschek Collection, Düsseldorf, Þýskalandi (2017).

Meðal safna sem eiga verk eftir listamennina eru Fondazione Prada, Mílanó; Samlung Goetz, München; Hammer Museum, Los Angeles; Moderna Museet, Stokkhólmi; Solomon R. Guggenheim Museum, New York; Museum of Modern Art, New York; Kunsthaus Zürich, Zürich og Whitechapel Art Gallery, London.