1. NO REGRETS! Lágmynd
  2. my smiley Silkiprent á spegli
  3. Protesting Nodding Doll
  4. Þrjár ljósmyndir: 1) The painter 2) The haiker 3) The end

Sýningarsalur: Hvelfing

Maria Pasenau er án efa áhugaverðasti norski listamaðurinn sem komið hefur fram á síðustu árum. Með aðstoð ljósmyndamiðilsins tekst Pasenau með listrænum hætti á við stafræna sjónmenningu samtímans. Með því að skrásetja persónulega leit sína að sjálfri sér skapar Pasenau huglægt skjalasafn og þegar hún beinir linsunni að þéttum hópi trúnaðarvina afhjúpar hún náið, berskjaldað og flókið samfélag, allt meðan hún leikur sér að birtingarmyndum dægurmenningar. Sem dæmi má nefna að leikurum úr sjónvarpsþáttaröðinni SKAM, táknmyndum norrænnar unglingamenningar, bregður fyrir á mörgum mynda hennar. Þrátt fyrir að verkum Pasenau hafi oft verið lýst sem „óúthugsuðum skyndimyndum af því sem hún er að gera með vinum sínum“ vitnar listræn nákvæmni hennar og tæknileg vandvirkni um að hún nálgist spurningar um stöðu ljósmyndunar í samtímanum, samtíma sem einkennis af ofgnótt stafrænnar sjálfskoðunar, á fagurfræðilegan hátt. Í sjónrænni veröld Pasenau eru þemu tengd kyni og kynverund áberandi og tíðablæðingar, gervigetnaðarlimir, kynfærahár kvenna, drag, kynlíf og nekt eru miðlæg í myndefninu. Á tímum þar sem nektarmyndir geta bæði verið gjaldmiðill í nánum samskiptum og vopn í opinberri smánun öðlast valdeflandi notkun hennar á eigin kvenlíkama aukinn kraft.

„Ég hef alltaf leikið mér með ímynd mína. Þegar eitthvað gerist í lífi mínu langar mig alltaf að fagna því með því að lita á mér hárið eða kaupa mér ný föt. Það er hægt að fylgjast með því hvernig tíminn líður með því að skoða litinn á hárinu mínu á ljósmyndum. Einu sinni litaði ég hárið á mér svart. Næsta dag stöðvaði lögreglan mig þegar ég var að krota á veggi. Þá vissi ég að það væri best að halda þeim hárlit. Ég hef alltaf haft áhuga á að leika mér með ímynd mína. Þannig hef ég alltaf verið.“
– Maria Pasenau
„Instagram er ekki hluti af minni listrænu veröld. Instagramreikningurinn minn er bara Instagramreikningurinn minn, eins og hjá öllum öðrum. Ég vil að myndirnar mínar séu á veggjum, ekki á Instagram. Ég vil frekar vera þátttakandi í hinum áþreifanlega veruleika en að skrolla upp og niður skjái. Ég hef sterkt á tilfinningunni að ég hafi nauman tíma og verði að nýta hann vel. Ég gæti dáið hvenær sem er. Og ég vil að rödd mín fái að hljóma þarna úti. Því ef ég dey og verkin mín enda ofan í kassa … ja, það væri það versta sem ég gæti ímyndað mér.“
– Maria Pasenau

UM LISTAMANNINN

Maria Pasenau (Mjøndalen, 1994) er samtímalistamaður sem starfar í Osló. Hún stundaði nám við norska ljósmyndaskólann í Þrándheimi. Meðal nýlegra einkasýninga hennar má nefna Whit Kind Regrets Pasenau (2018, Makeriet, Malmö, Svíþjóð), My Name is End, Bitter End (2018, K4 Galleri, Osló) og Pasenau and the Devil (2019, Fotogalleriet, Osló). Hún hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum, svo sem Early Works (2017, sýningarstjóri var Elise By Olsen, New Galerie, París, Frakklandi), The Hoodies (2017, sýningarstjóri var Charlie Roberts, Kristiansand Kunsthall, Kristiansand), Troløse bilder (2018, sýningarstjóri var Andrea Kroksnes, Nasjonalmuset, Osló), Pinkcube (2018, sýningarstjóri var Anja Carr, Tenthaus, Osló) og Sub (2018, sýningarstjóri Bjørn Hatterud, Akerhus Kunstsenter, Lillestrøm). Að auki tók Maria Pasenau þátt í stafrænni sýningu Bjarnes Melgaard, Life Killed My Chihuahua, á Instagramreikningi Galerie Thaddaeus Ropac (2018, sýningarstjórar voru Elise By Olsen og Julia Peyton-Jones). Árið 2018 kom fyrsta ljósmyndabók Pasenau út, Whit Kind Regrets Pasenau, og ári síðar kom bókin Pasenau and the Devil út í tengslum við samnefnda sýningu hennar í Fotogalleriet. Þriðja bók hennar, The Hoplesness Of Beeing Alive, kom út árið 2020. Maria Pasenau er einn af yngstu listamönnunum til að eiga verk á fastri sýningu norska ríkislistasafnsins.