Kopfkino - kvikmynd (2012)

Sýningarsalur: Hvelfing

Titill kvikmyndar Lene Berg, Kopfkino (2012), merkir höfuðmynd eða mynd í heilanum. Kopfkino var tekin upp í Berlín á tveimur dögum og skartar óviðjafnanlegu persónugalleríi. Grunnhugmyndin er einföld: Átta konur skiptast á sögum úr störfum sínum sem ganga öll út á að fullnægja kynferðislegum löngunum viðskiptavina þeirra. Konurnar sitja við langborð, líkt og á málverki Leonardos da Vinci, „Síðasta kvöldmáltíðin“ (u.þ.b. 1498), og eru klæddar eins og þær kvenstaðalímyndir sem þær látast vera; skólastúlka, stjórnandi fjölleikahúss, hershöfðingi eða prinsessa. Kvikmyndavélin fangar fyrirframákveðnar samræðurnar án þess að leikstjórinn stígi inn í þær. Konurnar fjalla um persónulega reynslu með eigin orðum en í aðstæðum sem hafa greinilega verið sviðsettar. Við erum á tökustað. Raunveruleg reynsla og sannar sögur mæta heimi blekkinga, skáldskapar og hugarburðar.

UM LISTAMANNINN

Lene Berg er norskur listamaður og kvikmyndagerðarkona sem lærði kvikmyndaleikstjórn við Dramatiska Institutet í Stokkhólmi. Verk hennar eru fjölbreytt, meðal annars innsetningar, gjörningar, kvikmyndir, ljósmyndir og textar, en hún sækir innblástur gjarnan í heimildaefni. Allnokkur verka hennar hafa verið sett upp í opinberum rýmum auk þess sem hún hefur leikstýrt þremur sjálfstæðum kvikmyndum í fullri lengd: En Kvinnas Huvud (Höfuð konu), Kopfkino (Hugarskot) og Gompen: Sögur af eftirliti í Noregi á árunum 1948–89 (Gompen og andre beretninger om overvåking i Norge 1948–89). Verk hennar byggja hvorki á fyrirframgefnum hugmyndum né viðteknum gildum, þau eru beitt, fyndin og óháð normum samfélagsins. Í vinnu sinni nýtir Berg myndbandsverk, innsetningar, texta og ljósmyndir – gjarnan allt í einu. Segja má að verk Lene Berg snúist um að endurmóta viðteknar frásagnaraðferðir. Í myndbandsverkum sínum skoðar hún mörk sannleika og lygi og endurspeglar pólitísk málefni í persónulegum frásögnum sem sprottnar eru beint úr samtímamenningu okkar. Með því að flétta saman veruleika og skáldskap rannsaka myndbandsverk hennar mótsagnir og vekja upp áleitnar spurningar um hvernig við mótum frásagnir og sögulega atburði í texta.