Þrjú málverk (2020)

Sýningarsalur: Hvelfing

Austurglugginn
Þar sem allt byrjar, aftur og aftur

Akrýlmálning & blek á striga. 170cmx140cm.
Í eigu listamannsins.

GF: „Sólarupprásin, upphafið og sólin, dagur byrjar, allt byrjar, aftur og aftur … taktfast með hverjum einasta hjartslætti, með hverjum nýjum einstaklingi. Nýtt upphaf en gömul saga, saga mannsins, saga dýrsins, saga plantna, saga um sögu. Endalaust nýtt í því gamla. Kirkjugluggi sem vísar í austur eða bara gluggi á húsi eða í huga. Mengi sem hringa sig utan um tákn, symból sem vísa í það sem var, verður og er að verða … eða hverfa?
Málverkið er gluggi út og inn, það andar. Það rökkvar í austurglugganum þegar sólin sest og íhugar í vestri, sefur aldrei og semur endalausar sögur, tifar og takturinn í talnaböndum geislanna sveipa allt nýrri tónlist, skuggar fæðast og undirniðri krauma draumar og martraðir en svo fæðast í austri á ný myndir og litríkar upplifanir, fæddar úr þjáningu, gleði, sársauka, hamingju og líka úr tómi, á auðmjúkan hátt, eins og pálminn og forfaðir alls lífs, sveppurinn.“

Tímavél (2020)

Akrýlmálning & blek á striga. 140cmx170cm
Í eigu listamannsins

GF: „Tíminn, svo hræðilega dásamlegur, eyðist og afmælist. Tími til að njóta, elska og lifa og tími til að þjást og deyja … Réttsælis og áfram, rangsælis og aftur til minninganna, gamall tími? Nýr tími á meðan allt er samt núna. Tímavélin á málverkinu er gamalt tréverk með skuggakólfi og svartan hatt, þetta er köttur margra lífa, sólin og máninn sitt hvorum megin við hann. Dagurinn sveipaður tifi og takti sólar og nótt mánans framleiðir talnaböndin eða nótnastrengi sem toga í ölduna og eldurinn brennur baksviðs. Rykflugur minninganna safnast saman og þyrlast í kringum tréverkið og narta í viðinn og framleiða minningar úr trjákvoðu. Að neðan er bústinn botn tímaeyjunnar sem tekið hefur á sig lag gorkúlu á hvolfi, máður botn og götóttur sem loðnir ormar naga, tímaormar að grafa göng í upphafið og breyta forminu svo allt geti endurfæðst og tekið á sig nýjar myndir.“

Norðrið (2020)

Akrýlmálning & blek á striga. 170cmx140cm.
Í eigu listamannsins

GF: „Hún er móða, þoka eða kuldaský sem hefur persónugerst í veru með hvítan feld og bleikar klær. Það er eins og veran sé hluti af fjöllunum en á sama tíma er eins og hún sé að svífa í humátt að þeim sem horfir á hana. Neðst á feldi verunnar myndast einskonar fjaðrir og það er sem hún svífi yfir, dalalæða í formi uglu eða snjómanns. Það hefur rignt og klettarnir eru svartir, þetta eru skepnur, tveir úlfar? Gagnvart náttúrunni er manneskjan algerlega berskjölduð, náttúra norðursins er köld og hrikaleg. Það býr margt í þokunni og þá bregst hið smáa mannshjarta við og umbreytir óttanum í myndir. Það er þetta andartak þegar manneskjan stendur lömuð af kulda, af ótta við hina ógurlegu óræðu náttúru og þegar þokan blindar og klettarnir ýlfra, þá málast upp myndir úr djúpum sálanna sem stilla af hræðsluna.
Veran heldur úlfunum í skefjum, hún stansar í augnablik og mildar ógnina, hún verður jafnvel vingjarnleg um stund á meðan úlfarnir eru bundnir, rétt áður en allt leysist aftur úr læðingi.“