Merirequiem Beta (2020)

Samstarf sjónlistakonunnar Emmu Helle og ljóðskáldsins Helenu Sinervo Sýningarsalur: Hvelfing

Í tilraunakenndu samstarfi fléttast ljóðræn abstraktstefna og söguleg afbygging Emmu Helle við skáldskap Helenu Sinervo á áhugaverðan hátt. Helena Sinervo skrifaði erótískan ljóðabálk um hafið og táknrænt samband þess við undirmeðvitundina með það í huga að Helle byggi til skúlptúra út frá honum. Við gerð skúlptúraraðar sinnar beitir Helle ljóðrænni hugsun og með verkunum tvinnar hún saman bókmenntir og höggmyndalist af innsæju, brotakenndu ímyndunarafli. Hún virðist hafa ákveðin orð í huga þegar hún hefst handa en út frá merkingarblæ þeirra spretta ný orð og ímyndir sem hún spinnur á varfærinn hátt í lög merkinga og tengsla svo úr verður margslunginn vefur.

Helle vinnur af miklu öryggi úr fjölbreyttum efniviði, svo sem postulíni, tré og endurnýttum hlutum, og nær þannig að kalla ljóðin fram á hlutstæðan hátt. Afraksturinn er fágað safn einstakra verka sem öll búa yfir djúpri merkingu en eru um leið glettin og uppfull af forvitni. Munirnir kveikja hugrenningartengsl frekar en að þau séu bein yfirfærsla og má því segja að ferlinu sem felst í því að byggja skúlptúra á ljóðum svipi til þess þegar textar ljóða eru túlkaðir í tónlist.

UM LISTAMENNINA

Emma Helle er finnskur myndhöggvari sem beint hefur sjónum sínum að jaðarsettum verum sem í listasögulegu samhengi hafa verið skilgreindar sem annars flokks. Í aðalhlutverkum eru kerúbar og álfkonur sem birtast sem gerendur í verkum hennar. Með afslöppuðum, tilgerðarlausum og ríkulegum stíl mótar hún ávöl form kvenlíkamans mjúklega og vekur með breidd sinni og íburði upp hugrenningartengsl við stórvirki listastögunnar. Í gegnum tíðina hafa gilt ákveðnar siðvenjur varðandi sjónræna framsetningu mannslíkamans. Helle tekst á við þá hefð með því að horfa annars vegar til listasögunnar og hins vegar líkamleikans. Emma Helle er útskrifuð frá myndlistarakademíunni í Helsinki. Fjölmörg söfn, bæði opinber og í einkaeigu, eiga verk eftir hana, meðal annars finnska ríkislistasafnið; listasafn Helsinki, HAM, og Pro Artibus. Hún hefur haldið ýmsar einkasýningar, til að mynda í listasafni Turku, og tekið þátt í samsýningum á listahátíðinni í Mänttä, í Kunsthalle Helsinki og nýlistasafninu í Espoo, EMMA.

Helena Sinervo er fædd árið 1961 í finnsku iðnaðarborginni Tampere. Hún ólst upp hjá bréfbera og karelskum flóttamanni, átti fjóra eldri bræður og lærði því bæði að slást og klifra í trjám. Hún býr nú í Helsinki ásamt dóttur sinni og starfar sjálfstætt sem rithöfundur. Sinervo stundaði nám í tónlistarskólanum í Helsinki og vann um árabil fyrir sér sem píanókennari en sneri sér að bókmenntum eftir háskólanám í bókmenntafræði, bæði í Helsinki og París. Ellefu ljóðabækur hafa komið út eftir Sinervo, þær nýjustu eru Avaruusruusuja (Geimrósir, 2014) og Merveli (2018) en auk þess kom veglegt safn ljóða hennar (Valitut runot, Ljóðaúrval) út árið 2011. Ljóð hennar hafa verið þýdd á 28 tungumál. Þriðja skáldsaga Sinervo, Armonranta (Náðarströnd), kom út árið 2016. Fyrir fyrstu skáldsögu sína, Runoilijan talossa (Í húsi skáldsins, 2004) hlaut hún Finlandia-verðlaunin, virtustu bókmenntaverðlaun Finnlands. Sinervo hefur tvisvar hlotið Dansandi björninn, verðlaun finnska ríkisútvarpsins fyrir bestu ljóðabókina, fyrst árið 2001 fyrir Ihmisen kaltainen (Eins og manneskja) og svo árið 2011 fyrir Väärän lajin laulut (Söngur hinna röngu tegunda). Sinervo hefur einnig skrifað fyrir börn. Tvíleikurinn Patarania kom út á árunum 2012 og 2013 og ljóðabók árið 2007. Helena Sinervo er jafnframt virtur bókmenntarýnir, kennari í skapandi skrifum og ljóðaþýðandi.