Fyrir nú
Í verkinu Fyrir nú veltir Bjarki Bragason fyrir sér tímanum eins og hann birtist í uppfoknu landsvæði á Mývatnsöræfum. Í leiðangri um svæðið sumarið 2021 fylgdi hann jarðvísindafólki sem vann að rannsóknum á gjóskulögum Heklugosa í jarðvegi á landsvæði sem í dag einkennist m.a. af örfoka heiðalandslagi inn á milli stórra gróðursvæða.
Hekla hefur gosið yfir tuttugu sinnum á síðustu þúsund árum. Þau gjóskulög og fyrri tíma eru lesin í jarðvegslögum líkt og dagatal um jarðsöguna.
Á miðri heiði stendur stórt rofabarð líkt og stapi, etv. þriggja metra hátt. Á vindasömum dögum þyrlast upp fok af jarðvegi sem hægt og býtandi mylur burtu gróðurþekjuna sem stendur efst á stapanum.
Í skoðun sinni á svæðinu færði Bjarki sjónarhornið niður að rótum gróðursins neðst í rofabarðinu, og smækkaði sjónsviðið þannig að minnstu agnir verða greinilegar. Í moldrokinu sameinast agnir úr jarðvegi síðustu rúmu þúsund ára og gjóska úr ólíkum jarðlögum Heklugosa og dreifast langar vegalengdir. Hið brotakennda sjónarhorn sem verður til þegar augað er fært niður að sverðinum er á sama tíma breyting á skynjun líkamans og tilraun til að skynja hið flókna samspil tímaskala sem á sér stað þegar blöndun upplýsinga frá ólíkum árþúsundum á sér stað, blöndun sem einkennir þann marglaga veruleika sem á sér stað í upplifun af náttúrunni.
Klipping og hljóðvinnsla: Sabine Fischer
Sérstakar þakkir: Anna Líndal, Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen