Á sýningunni Time Matter Remains sýnir Anna Rún tvær seríur af verkum sem saman mynda innsetningu. Þrjú vatnslitaverk og þrjá skúlptúra. Viðfang verkanna er sameiginlegt og hverfist um grunnaflið segulvirkni en útfærsla verkanna er ólík.

Skúlptúr innsetningin ber titilinn "Geymd" og er birtingarmynd tengsla milli efna sem auðvelt er að telja ótengd. Umhverfi okkar er umorpið missýnilegum kröftum og tengslavirkni sem mynda hinn flókna og heildræna vef sem lífríkið á plánetunni er. Verkin eru vitnisburður um einn slíkan kraft og þar sem segulsvið bergmola stýra segulnálum (áttavitum). Segulsvið jarðarinnar hleður sig inn í jarðlögin jafnóðum og þau mótast. Á tímaskala jarðarinnar er mannkynið smátt, frá fyrstu drögum mannlegrar tilvistar hefur ein og sama segulstefnan verið ríkjandi á jörðinni. En segulsviðið er síkvikt og hleðsla rafsegulkraftsins umpólast með reglulegu millibili. Sú saga býr í öllu bergi plánetunnar.

Berg sem stýrir áttavitanál í norður er tekin úr Skálafelli á Hellisheiði er u.þ.b.0.8 millján ára gamalt.
Berg sem stýrir áttavitanál í suður er tekin úr Korpuósum í Grafarvogi er u.þ.b. 2 milljón ára gamalt.
Berg sem stýrir áttavitanál í vestur er tekin úr Skálamælisfelli á Reykjanesi. Bergið er 92.000 ára gamalt og mótaðist á tímabili þegar algjört frávik í segulstefnu jarðar átti sér stað. Þá voru segulpólarnir þvert á það sem við í dag þekkjum og lágu við miðbaug jarðarinnar.

Titill tvívíðu verkanna er "ókerfisbundin kortlagning" en þau eru heimild um ferli sem þegar hefur átt sér stað. Ferli þar sem vatnslitur var leiddur inn í samtal við grunn öfl segulvirkni og þyngdarlögmálsins. Anna Rún sviðsetur gjörning þar sem efnin fá að myndbirta niðurstöðu ferlisins. Pigment haga sér og virka á hátt sem endurspeglar uppruna þeirra. Eitt slíkt pigment á uppruna sinn úr steinefni sem er segul virkt. Í verkunum hefur segulvirkni áhrif á pigment og þyngdarlögmálið áhrif á hvernig pappírinn virkar með vatni. Úr slíku ferli verða til einstakar útkomur sem hver um sig er kortlagning á sértækum tengslum og tiltekinni virkni.

Um listamann

Anna Rún Tryggvadóttir starfar jafnt á Íslandi og í Berlín Þýskalandi. Anna Rún vinnur með hreyfimunstur í skúlptúr innsetningum og efnislegum gjörningum. Verkin hverfast um sjónarhorn okkar á náttúruna sem í vestrænni menningu síðustu alda hefur einkennst af því að horfa frá manninum sem miðpunkti á það sem stendur fyrir utan. Í gegnum látlaust en sviðsett samband ólíkra viðfangsefna skapar listamaðurinn gjörninga sem ögra hefðbundnu sjónarhorni tvíhyggju og veita rými fyrir og óvænta tengslamyndun. Í verkum Önnu Rúnar eru ýmist jörðin sjálf, landslag eða hlutar úr landslagi dregnir inn í sviðsetningu á listrænum gjörningi.