MENJAR UM TILFINNINGALEGAN SKJÁLFTA
1 - Gekk undir jörðinni í Nátthaga og í loftinu á Vatnajökli.
2 Sá horfinn stað
Heyrði brothljóð í storknuðu hrauni sem hljómaði eins og skriðjökull
Lyktaði af brunnu grasi áður en kvikan gleypti það
Fann hita kviku að móta kúlu sem splundrast með blossa og varð að glóð
Gapti yfir bláum gaslogum sem dönsuðu í hrauninu og þóttust vera arineldur
Gekk upp brekku sem hraunið hafði gleypt á leiðinni til baka
Sat á hóI, át hnetur, sá hraunstrauma faðmast og búa til land
Ætlaði heim en galdurinn stöðvaði mig
Lagðist sunnanundir hæð, hlustaði á þögnina, fann fyrir myrkrinu, reyndi að raða saman Óríon sem var annars staðar þegar stjarnan hrapaði með löngum hala
3 - Hver eða hvað getur eignað sér eld sem vellur úr möttli jarðar í gegnum jarskorpuna og verður að stað ofan á eignarlandi?
4- Áður en eldgosið hófst var talið líklegast að gossprungan myndi opnast í Nátthaga án þess að gera frekari boð á undan sér. Allar viðvaranir sem eldgos senda frá sér voru þegar fram komnar. Þann 14. mars fór ég með MTG og TD að kanna svæðið, við gengum upp hjá Slögu eftir Langahrygg og skoðuðum ummerki eftir jarðskjálftahrinur. Sprungur höfðu myndast og hrunið úr hlíðum. Þar sem við gengum eftir Langahrygg og horfðum á bíl í Nátthaga sagði MTG: „ef það byrjar að gjósa núna þá er þessi bíll staðsettur nákvæmlega þar sem líklegast er að gossprungan opnist.“ Þremur korterum síðar vorum við komin nákvæmlega á sama stað og bíllinn stóð áður. Ég nánast hljóp yfir botninn á Nátthaga en beygði mig samt niður til að taka með mér handfylli af jarðvegi til að varðveita ef hraunið myndi síðar renna þar yfir. Fimm dögum síðar byrjaði að gjósa í Geldingadölum.
5- Hvað gerist þegar land er fjarlægt og flutt um stað?
6- 5. 5. 2021. Horfði á eldinn í hraunjaðrinum læsast í einu trjáhrísluna sem sjáanleg var í Meradölum. Gasmælar vældu meðan ég náði hluta af brennandi hríslunni upp með rótum og stakk henni í vatn heima á vinnustofu. Örfáum dögum síðar var hríslan, sem hafði verið „nakin“ í Meradölum, orðin alsett ljósgrænum, þunnum blöðum. Samkvæmt leiðbeiningum um meðferð trjáplantna rændi ég hrjóstrugum jarðvegi sem blandað var við innflutta gróðurmold og gróðursetti iðagræna trjáhríslu. Nokkrum dögum síðar horfði ég döprum augum á krumpuð og slöpp laufblöð sem týndu tölunni og taldi víst að nú væri úti um Meradalshrísluna. Allt í einu var svo kominn fyrsti sprotinn af nýju lífi. Hríslan fór í fóstur til Dóru frænku og þegar ég kom heim úr fríinu mætti mér hraustlegt tré með fagurgrænum laufblöðum, tilbúið að takast á við nýjan veruleika.
7 Þegar norðurgígarnir voru virkir sást nánast ofan í nyrsta gíginn og ég undraðist yfir flekunum sem ultu þar upp. Heima fletti ég upp í Vá-bókinni (NÁTTÚRUVÁ Á ÍSLANDI, ELDGOS OG JARÐSKJÁLFTAR) og á bls. 83 stendur: „Þegar vatn leysist úr bráðinni, eykst seigja hennar og þar með mótstaðan við útþenslu. Kvikan tætist í flygsur ef gufumagn er verulegt. Það er þó háð gasinnihaldi hennar og hversu hratt gasið leysist úr henni. Síðasta spölinn upp úr gígnum streymir því blanda af gasi, kvikuflygsum og bergbrotum sem brotnað hafa úr gosrásinni, á miklum hraða.“
8 Gosmóða
Land í stöðugri breytingu verður aldrei endanlegt
9 Hvernig verður staður til?
á hvaða andartaki hverfur staður?
10 Yfirborð jarðar er samsett úr risastórum flekum sem hreyfast hver með tilliti til annars. Þessar hreyfingar eru afleiðingar af því að jörðin þarf að losna við varma sem myndast í iðrum hennar, bæði vegna geislavirkni og hægrar kólnunar. Flekamótin eru þrennskonar: Frárek, þar sem tveir flekar reka hvor frá öðrum, samrek þar sem einn fleki gengur undir annan og sekkur niður í möttulinn, og hjárek, þar sem tveir flekar núast saman þegar þeir skríða hvor í sína áttina. Ísland situr á úthafshrygg þar sem Evrópa og Asía sitja á öðrum flekanum og Norður-Ameríka á hinum. Flekana rekur hvorn frá öðrum og ný kvika fyllir í skarðið. Þess vegna verða eldgos á Íslandi. Auk úthafshryggsins er möttustrókur undir Íslandi og nær hann langleiðina niður á kjarna jarðar. Það er vegna hans sem eldgos eru meiri og tíðari hér en annarstaðar á Mið-Atlantshafshryggnum. Jafnframt er það ástæðan fyrir því að Ísland er til, ef ekki væri fyrir möttulstrókinn væri hér 2-3 kílómetra hafdýpi og ekkert land ofan sjávarmáls. Eldgosið í Fagradalsfjalli er ein birtingarmynd aflanna sem marka þessa stóru drætti í jarðfræði landsins. Flekamótin liggja um Reykjanesskagann. Eldvirkni á skaganum er lotubundin þar sem skiptast á tímabil án eldgosa og eldgosatímabil. Með gosinu í Fagradalsfjalli lauk næstum 800 ára löngu kyrru tímabili. Síðasta eldgosatímabil stóð frá því um 800 fram til 1230. Nú er nýtt gostímabil hafið.
Kvikan sem kemur upp er um 1200 gráðu heit, þunnfljótandi basalt. Hún kemur beint upp úr möttli jarðar, ekki úr kvikuhólfi í jarðskorpunni eins og algengast er hér á landi, m.a. í gosum Heklu, Kötlu og Grímsvatna. Hraunrennslið var tiltölulega rólegt í upphafi gossins en jókst síðan heldur eftir tveggja mánaða gos. Komið hafa tímabil af mjög stöðugu hraunrennsli. Líka tímabil með strókavirkni á nokkurra mínútna festi. Þar aðskildist gas og fljótandi kvika og gasið losnaði með látum í strókunum. Núna síðast hefur virknin verið lotukennd þar sem gýs í 12-18 tíma og síðan koma álíka löng kyrrðartímabil. Eftir fimm mánuði er magnið komið vel yfir 100 milljón rúmmetra. Gígurinn er í Geldingadölum, litlu dalverpi sunnanvert í Fagradalsfjalli og hraunið hefur runnið á víxl suður eftir Geldingadölum, í Nátthaga eða til austurs í Meradali. Það er nú orðið mjög þykkt víða þar sem það vinnur að því að fylla dalina. Stundum myndast helluhraun. Þá nær hraunið að renna undir yfirborðinu og er þunnfljótandi þegar það kemur að jaðrinum. Þannig hraun getur runnið langar leiðir. Á öðrum tímum, einkum þegar virknin er lotubundin, rennur hraunið á yfirborði, kólnar hraðar og myndar apalhraun.
Flest gos eru ekki löng, en einstaka standa árum saman. Surtsey gaus t.d. í þrjú og hálft ár á árunum 1963-67. Algengara er að gos standi í fáar vikur. Engin leið er að segja um hve lengi þetta gos muni vara. En því lengur sem það stendur því meiri verða breytingarnar á landslagi við Fagradalsfjall.
– Magnús Tumi Guðmundsson
Um listamann
Anna Líndal hefur verið sjálfstætt starfandi myndlistarmaður í 30 ár. Verk hennar einkennast af sterkum samfélagslegum tilvísunum, hún kortleggur hversdagslífið og hverfulleikann þar sem hún finnur bæði límið sem heldur öllu saman og kjarnann að árekstrum samtímans. Verkin fjalla um gamalgrónar hefðir, ósýnilegt vald sem stýrir en ómögulegt er að sjá eða staðsetja hvaðan valdið kemur eða hvernig samfélagslegt gildismat verður til.
Mörg verka Önnu fjalla beint eða óbeint um víxlverkandi samband manns og náttúru. Þar byggir Anna mikið til á eigin upplifun með nátturunni og þátttöku í leiðöngrum með vísindamönnum, hún skoðar ferla nátturunnar sjálfrar og samband rannsakandans við viðfangsefnið. Pólitískt hlutverk nýjustu tækni og siðferðilegar hliðar loftslagsbreytinga eru henni hugleikin en úrvinnslan er ávallt í samspili við þá sjónrænu þætti sem myndlistin hefur byggt á í gegnum aldirnar; myndbyggingu, litasamsetningar, staðsetningu í rými, auk þáttum sem leitast við að tengjast áhorfendum í gegnum breytingu á og örvun skynjunar þeirra á aðstæðum og rými.